Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Sultugert er svo skemmtileg og frekar auðveld þegar er búin að læra réttu handtökin. Hér undir eru góð ráð sem ég veit að nýtast. Ég geri sultur, kryddmauk og pikklað grænmeti allan ársins hring og þá ekkert endilega mikið magn í einu. Hér eru plómur notaðar en má endilega nota ferskjur eða nektarínur þegar þær fást.
800 g plómur
500 g sykur
2 sítrónur, safinn af
Skolið og skerið plómurnar í litla bita. Setjið þær í pott ásamt sykri og sítrónusafa. Látið suðuna koma vel upp, lækkið þá hitann og sjóðið sultuna við meðalhita í 15 – 20 mín. Prófið sultuna eftir 15 mín. með því að nota aðferðina með köldu diskana í frysti. Sjóðið hana áfram í nokkrar mínútur og ef hún hefur ekki þykknað, haldið þá áfram að prófa hana þar til ykkur finnst hún nokkuð stíf. Hellið í krukkur og lokið strax. Sultan geymist í ísskáp í 3 mánuði. Uppskriftin gefur 3 meðalstórar krukkur.
Góð ráð
Ef þið eruð óvön sultugerð er betra að gera frekar minni uppskriftir. Þá er auðveldara að ná utan um verkefnið og ef eitthvað fer úrskeiðis er ekki búið að kosta of miklu til.
Fyrir þá sem eru að stíga fyrstu skrefin í sultugerð er betra að byrja á berja eða ávaxtamauki frekar en en hlaupi. Mauk er auðvelt að laga og ef það stífnar einhverra hluta ekki er það þó alltaf dásamlegt á bragðið og klárast alltaf.
Best er að sjóða sultur í víðum potti, helst stálpotti. Með því að hafa pottinn víðann gufar vökvinn hraðar upp og minni hætta er á að ávextirnir sjóði of lengi.
Í lok suðutímans er gott að fylgjast með því hvort sultan er nógu stíf. Það er sniðugt að vera með nokkra litla diska í frysti, taka einn út og láta smávegis af sultu á hann, sultan stífnar fljótt á disknum ef hún er tilbúin. Ef hún er ekki tilbúin er hún soðin áfram í nokkrar mínútur áfram og prófa aftur. Oft er þetta bara spurning um mínútur.
Ávextir innihalda náttúrulegan sykur en til að gera sultu þarf meiri sykur til að leysa úr læðingi hið náttúrulega hleypiefni í þeim. Passið að sjóða sultur við meðalhita. Ef þið látið sultu bullsjóða á háum hita getur sykurinn krystallast og vinnur ekki með ávöxtunum á eðlilegan hátt og sultann þykknar ekki.