Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Franskara verður það varla. Þessi eplakaka er í boði á mjög mörgum veitingahúsum í Frakklandi sem bjóða upp á heimilislegan mat. Eplin eru karamelukennd enda bökuð í karamelusykri í langan tíma. Frakkar bjóða alltaf upp á sýrðan rjóma með kökunni enda sýrði rjóminn þeirra flauelsmjúkur og feitur og algjört nammi. Ég hef borið fullfeitan sýrðan rjóma bragðbættan með örlitlum sykri og vanillu með. Kakan er bökuð í formi sem er heilt (ekki lausbotna) og er 24 cm á breidd og 5 cm hátt.
250 g smjördeig eða bökudeig
6-8 epli, gott að nota Granny Smith ( 1 kg)
100 g sykur
60 g smjör
ofan á:
50 g sykur
20 g smjör í litlum bitum
Rúllið deiginu út þannig að hægt sé að skera út 24 cm köku. Ef þið notið frosna smjördeigið nægja 2 plötur. Setjið deigið á plötu og í kæli á meðan þið undirbúið eplin.
Skrælið eplin, skerið í fjórðunga og kjarnhreinsið þau.
Bræðið sykur á pönnu þar til hann fer að brúnast, lækkið hitann eða takið pönnuna af hitanum og bætið smjöri út í, látið það bráðna í sykrinum.
Hellið sykrinum í formið sem þið ætlið að baka kökuna í, það er allt í lagi þó smjörið og sykurinn sé ekki samlagað.
Raðið eplum þétt í formið. Stráið sykri ofan á og setjið smjörbita hér og þar ofan á eplin. Leggið smjördeigið ofan á, ath. Ekki þétta meðfram börmunum heldur gefið loft meðframm. Skerið litla skurði með hníf í deigið á 4 stöðum. Bakið þetta í 60 mínútur.
Látið bíða á borðinu stutta stund og hvolfið síðan á disk þegar formið er orðið það kalt að hægt sé að handleika það, gott að losa vel um og hrista formið til svo eplin losni.
Berið fram með fullfeitum sýrðum rjóma, ís eða þeytttum rjóma.