Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Hunang kanell og marsípan eru jólin hjá mér. Þessar undurfallegu kökur eru eins góðar eins og þær eru fallegar. Þær eru frekar einfaldar í framkvæmd því þeim er rúllað upp í pylsu og skornar niður í bita áður en þær eru bakaðar. Súkkulaði og mandla á toppinn gerir síðan útslagið.
30-40 stk.
150 g mjúkt hunang
25 g smjör, mjúkt
2 msk. sykur
1 tsk. kanell
½ tsk. negull
½ tsk. pottaska eða lyftiduft
½ tsk. hjartarsalt (má sleppa)
175-200 g hveiti
Hrærið hunang, smjör og sykur vel saman. Blandið hveiti og öðrum þurrefnum saman og bætið í hunangshræruna. Hnoðið allt saman í samfellt deig. Setjið deigið á disk og í ísskáp í 10 mín á meðan þið útbúið fyllinguna.
Hitið ofninn í 175°C (160°C á blástur). Rúllið deiginu út á hveitistráðu borði. Skerið það í lengjur 5 cm breiðar. Setjið pylsu af marsípani á hverja lengju og leggið lengjuna saman svo samskeitin snúi niður. Skerið síðan lengjuna í 1 ½ cm bita. Farið eins að við afganginn af deiginu og passið að hafa nóg af marsípani á allar lengjurnar. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og raðið kökunum á hana, þær renna nánast ekkert út svo það má raða þétt. Bakið í 8-9 mín. Bræðið súkkulaði í vatnsbaði og penslið því ofan á kökurnar þegar þær eru kaldar og skreytið með möndlu.
Fylling:
200 g marsípan
1 sítróna, börkur af henni
½ eggjahvíta
1-2 msk. sykur eða eftir smekk
Hrærið öllu saman.
Ofan á.
50 g súkkulaði
30 möndlur