Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
12 sneiðar
Deig:
200 g möndlumjöl eða afhýddar möndlur, malaðar í matvinnsluvél 140 g smjör, mjúkt
200 g sykur
1 stórt egg
1 eggjahvíta
50 g hveiti
Byrjið á því að laga eplamaukið og gerið deigið á meðan það mallar. Hitið ofninn í 175°C (170°C á blástur). Hrærið möndlumjöl, smjör og sykur mjög vel saman eða þar til það er mjög vel samlagað. Bætið eggi og eggjahvítu út í og látið vélina ganga á meðalhraða í u.þ.bl. 5 mín. Bætið þá hveiti í og blandið saman með sleikju. Setjið bökunarpappír í botninn á smelluformi 22 cm í þvermál. Setjið rúman helminginn af deiginu í formið og jafnið því með blautum fingrum, látið svolítið af deiginu upp með hliðunum svo það myndi skál. Hellið eplamaukinu í formið og lokið síðan með því sem eftir er að deiginu ofan á. Bakið í 45 mínútur. Berið fram volga með þeyttum rjóma.
Eplamauk:
800 g epli, það eru 3 stór eða 4 minni
2 msk. epladjús
3 msk. sykur, eða eftir smekk, ef eplin eru súr þá þarf örlítið meira
salt á hnífsoddi
1 tsk. vanilludropar sett í síðast
Skrælið og kjarnhreinsið eplin og skerið í litla bita. Setjið allt nema vanilludropa í pott og látið sjóða við meðalhita þar til eplin eru mjúk, stappið þau í mauk. Bætið vanilludropum saman við.