Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Þessi fallega terta vekur upp margar minningar um glæsileg kökuboð, skírn, fermingar og afmæli. Ég fann uppskriftina í dönsku matarblaði 1982, og bakari þar í landi bar hana fram sem eftirrétt í veislu þegar píanóleikarinn frægi Rubinstein heimsótti Danmörku. Ég hef séð þessa köku í frönskum bakaríum enda sækja Danir mikið af sinni kökumenningu þangað. Þetta er sparikaka. Henni fylgir svolítil fyrirhöfn en hún er drjúg og falleg á borði. Uppskriftin að vatnsdeigsbollunum er rífleg og má frysta sem verður afgangs. Önnur hugmynd er að fylla þær með rjóma og setja karamellu ofan á, nota stóran tertudisk og raða þeim hringinn í kringum kökuna.
Botninn:
200 g möndlur malaðar eða möndlumjöl
4 eggjahvítur
200 g sykur
Hitið ofninn í 160°C. Setjið möndlur, eggjahvítur og sykur saman í pott og hitið í um 3-4 mín eða þar til þið fáið þykkan og ilmandi massa. Setjið massann í 26-28 cm smjörpappírsklætt smellumót og bakið í 30-40 mín.eða þar til kakan er ljósbrún að lit. Kælið botninn og losið úr forminu.
Vatnsdeigsbollur - 20 smáar bollur:
1 dl vatn
25 g smjör
1 dl hveiti
2 egg (100 g án skurnar )
Hitið ofninn í 200°C. Hitið vatn og smjör saman í potti. Setjið hveiti út í og hrærið saman. Takið pottinn af hitanum og setjið eggin út í eitt í einu, sláið vel saman á milli. Setjið litlar kúlur með tveim teskeiðum á smjörpappírsklædda plötu og bakið í um 15 -20 mín.
Rommfrómas:
2 egg
2 eggjarauður
5 msk. sykur
6 blöð matarlím
3 ½ dl rjómi
½ dl dökkt romm( eða eftir smekk)
Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn. Hrærið vel saman egg, eggjarauður og sykur. Þeytið rjóman, athugið að léttþeyta hann. Blandið saman eggjamassa og rjómanum. Bræðið matarlímið í vatnsbaði eða í örbylgjuofni, blandið rommi út í og hellið blöndunni út í rjómablönduna
Franskt núgga:
4 msk sykur
3 msk. saxaðar hnetur, má vera hvað tegund sem er
Hitið sykurinn á pönnu þar til hann er orðinn ljósbrúnn. Bætið hnetum í og hrærið saman. Hellið á bökunarpappír og látið kólna. Setjið í plastpoka og merjið gróft með kefli.
Annað sem þarf:
½ krukka af hindberjasultu
½ dl romm
50 g franskt núgga
4 msk. karamella eða 50 g brætt mjólkursúkkulaði til að setja ofan á bollurnar.
Kakan er sett saman þannig: Setjið botninn aftur í formið með smjörpappír á botninum. Dreypið rommi yfir með skeið. Smyrjið sultunni á botninn. Hellið rommfrómasinum yfir sultuna og kælið í 3-4 klst. Eða yfir nótt Skreytið með vatnsdeigsbollum og núgga. Fallegt er að setja karamellu eða ljóst súkkulaði á bollurnar. Ef þið viljið er gott að fylla bollurnar með hluta af kreminu áður en það verður stíft.