750 grammes All blogs Top blogs Food & Drink
All our cooking blogs Edit post Follow this blog Administration + Create my blog
MENU

Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði

Ítalska rjómatertan

Uppáhalds tertan um þessar mundir hjá fjölskyldunni er þessi látlausa ítalska terta. Ég fann þessa uppskrift í upphafi hjá Emico Davis en þurfti að breyta henni að okkar smekk og því hráefni sem fæst hér. Emico hefur gefið út margar matreiðslubækur um ítalskan mat og kökur er líka með fallegt instagram. Við elskum þessa köku, hún er stór og því drjúg og með þessu ekta ítalska bragði. 

Ítalska rjómatertan

Svampbotn:

120 g hveiti

30 g kartöflumjöl

4 egg, helst við stofuhita

120 g sykur

 

Hitið ofninn í 180°C.  Setjið bökunarpappír á botninn á smelluformi sem er 22 cm á breidd. Penslið innan á hliðarnar með matarolíu eða smjöri.

Sigtið hveiti og kartöflumjöl saman í skál og setjið til hliðar. Þeytið egg og sykur saman þar til ljóst og loftkennt. Bætið hveiti út í og blandið varlega saman með sleikju. Hellið deiginu í formið og bakið í 30-35 mín. Takið kökuna úr forminu og látið hana kólna, skerið hana síðan þversum svo þið fáið 3 lög.

 

Síróp:

1 dl vatn

2 msk. dökkt romm

40 g sykur

börkur af I sítrónu

rauður matarlitur (má sleppa)

Setjið allt í pott og sjóðið saman í 5 mín án þass að hafa lok á pottinum. Vökvamagnið á að minnka aðeins.

 

Krem:

5 dl mjólk

4 eggjarauður

120 g sykur

30 g kartöflumjöl

2 tsk vanilludropar

60 g súkkulaði, saxað

 

Hitið mjólkina í potti þar til hún er vel heit en sýður ekki. Pískið saman eggjarauður og sykur í rúmgóðri skál þar til mjúkt, bætið kartöflumjöli út í og blandið vel. Hellið heitri mjólkinni út í eggin og blandið vel, hellið þessu síðan aftur í pottinn og látið suðuna koma upp og kremið þykknar. Hrærið stöðugt í. Lækkið hitann og sjóðið kremið áfram í nokkrar mínútur, hrærið stöðugt í, eða þar til þurra bragðið af kartöflumjölinu er farið. Takið af hitanum og bætið vanilludropum í.

Skiptið kreminu í tvo parta og setjið súkkulaðið á annann hlutann á meðan kremið er heitt, blandið því vel saman við.

 

Hjúpur utanum kökuna:

4 dl rjómi

3 msk. flórsykur

100 g möndluflögur, ristaðar á pönnu þar til gullnar

Léttþeytið rjómann með flórsykrinum.

 

Samsetning á kökunni:

Setjið einn botn á tertudisk. Dreypið helmingnum af sírópinu á botninn. Dreifið úr súkkulaðikreminu ofan á. Setjið miðpartinn af kökunni ofan á súkkulaðikremið, dreypip því sem eftir er af sírópinu ofan á botninn, setjið vanillukremið ofan á og síðan síðasta botninn þar ofan á. Smyrjið rjómanum ofan á kökuna og á hliðarnar. Setjið vel af ristuðum möndlum á hliðarnar allan hringinn.

Ítalska rjómatertan
Back to home page
Share this post
Repost0
To be informed of the latest articles, subscribe:
Comment on this post