Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Uppskriftin að ávaxtakökunni er búin að vera lengi með okkur. Þetta er kakan sem er gjarnan bökuð á vorin, hún er síðan skorin í hæfilega bita og fryst til að eiga síðar sem sætan bita með kaffinu í dagsferð í sveitina. Kakan er ekki mjög sæt en undurbragðgóð. Þessi er okkar uppáhald.
80 g heslihnetur
250 g smjör, mjúkt
180 g sykur
4 egg
3 msk. sjerrý eða ávaxtasafi
1 dl þurrkaðar döðlur, saxaðar
1 dl þurrkaðar fíkjur, saxaðar
1 dl þurrkaðar apríkósur, saxaðar
1 ½ tsk. vanilludropar
260 g hveiti
Hitið ofninn í 175°C. Setjið heslihnetur í ofnskúffu og bakið í 5-10 mín eða þar til þær eru dökkar( það má líka rista þær á pönnu). Hrærið saman smjör og sykur þar til það er ljóst og létt. Setjið egg út í eitt í einu og hrærið allt vel saman. Bætið sjerrí eða safa út í og hrærið vel saman. Nuddið hýðið af heslihnetunum, gott að nota rakann eldhúspappír, og saxið þær mjög gróft. Það er allt í lagi að hafa nokkrar heilar. Blandið öllu öðru sem fer í kökuna út í og hrærið saman. Setjið bökunarpappír í 25 cm langt jólakökuform eða smyrjið það og jafnið deiginu í það. Bakið kökuna
a neðstu rim í ofni í klukkutíma. Hún er tilbúin þegar prjóni sem er stungið í hana kemur hreinn út og hætt að "hvissa" í henni.
NB: Trixið við að fá formkökur safaríkar er að taka þær úr ofninum á réttum tíma eða rétt eftir að hætt er að heyrast þetta kraumandi hvissandi hljóð í henni. Fylgist því með kökunni í lok bökunartímans.