Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Ég hef alltaf verið mikið fyrir bökur, bæði að njóta þess að borða þær og líka búa þær til. Þegar ég bjó í París fór ég reglulega á veitingastað sem hér Tarte´s Julie, en það voru seldar allskonar tegundir af söltum og sætum bökum. Hér er uppskrift að bláberjaböku sem er undurgóð og falleg á borði.
Bökuskel:
180g hveiti
100 g kalt smjör í bitum
2 msk sykur
½ tsk salt
1 eggjarauða
½ dl ískalt vatn
Fylling:
70 g smjör mjúkt
70 g sykur
1 stórt egg
100 g marsípan rifið (ren rá masse)
1 msk. hveiti
500 g bláber
Bökuskel:
Útbúið bökuskelina. Sigtið hveitið á borðið, bætið sykri og salti í og myljið smjörið saman við þar til smjörbitarnir eru á stærð við pínulitlar baunir. Gerið laut í hveitið og setjið eggjarauðuna og vatn þar í og hnoðið saman þar til vel samlagað (þetta má líka gera í skál). Pakkið deiginu í plastfilmu og geymið í ísskáp í 15 mín. Einnig má laga deigið í matvinnsluvél. Þá er allt nema eggjarauða og vatn sett í vélina stillt á mesta hraða í 1 mín, rauðu og vatni bætt í og hrært saman aðra mín eða þar til vel samlagað. Geymt 15 mín í ísskáp. Hitið ofninn í 200°C. Fletjið deigið út og setjið í botninn á ofnföstu formi eða smelluformi. Það má líka fletja deigið út og setja á bökunarpappír á ofnplötu eins bakan á myndinni. Þá er gott að skilja pláss eftir yst svo auðvelt verði að bretta inn á yfir fyllinguna.
Fylling:
Hrærið saman smjör og sykur. Bætið eggi í og hrærið vel saman. Bætið marsípani, hveiti og bláberjum út í og hellið fyllingunni í formið. Bakið bökuna neðst í ofni í 25 mín. Berið fram með þeyttum rjóma eða vanillusósu.