Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Ég keypti poka af piparhnetum í því fræga bakaríi Lagkagehuset í Kaupmannahöfn einu sinni og mér fannst þær bestu piparhnetur sem ég hafði smakkað. Nokkrum árum síðan fann ég uppskrift í dönsku jólablaði þar sem þessi uppskrift birtist. Heppin ég ! Piparhneturnar hafa verið bakaðar fyrir hver jól síðan en líka stundum á öðrum árstíma því þær eru svo góðar.
250 g smjör, mjúkt
250 g sykur
500 g hveiti
1 dl rjómi
1 tsk. engiferduft
1 tsk. kanell
1 tsk. hvítur pipar
1 tsk. kardimommur
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi
Hitið ofninn í 200°C. Hrærið smjör og sykur saman í hrærivél þar til létt og kremkennt. Bætið rjóma út í, stillið vélina á rólega stillingu og látið deigið samlagast vel. Vigtið hveitið í skál og setjið öll þurrefnin út í það, blandið þessu vel saman. Bætið hveitiblöndunni út í smjörblönduna og hrærið saman þar til samfellt deig, með höndum ef þarf. Skiptið deiginu upp í nokkra bita og rúllið því í pylsur á þykkt við fingur. Setjið bökunarpappír á bökunarplötur og skerið deigið í 1 -2 cm bita. Raðið þeim á bökunarplötuna, hafið helminginn bara skorinn og rúllið hinum í kúlur. Fallegt er að hafa þær mismunandi en það er bara valkvæmt. Kökurnar stækka örlítið en renna ekki út, má því raða nokkuð þétt. Bakið í 8-9 mín. Látið þær kólna og setjið síðan í blikkbox. Geymast vel.