Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Á fyrstu hjúskaparárunum átti ég lítinn bækling með uppskriftum frá Ljóma smjörlíki. Þessi bæklingur var til á næstum hverju heimili og mikið bakað úr honum. Þessi afmæliskaka var einmitt í þessum bækling og var bökuð fyrir öll afmæli. Mín börn hafa tekið þessa uppskrift með sér og baka fyrir afmæli barnanna sinna og alltaf þykir hún besta afmæliskakan. Líklega er hún upprunalega amerísk því allt er mælt í bollum, ég læt hana standa eins og hún birtist í bæklingnum en nota samt núna smjör í dag en ekki smjörlíki.
Botnar:
2 bollar hveiti
1 1/2 bolli sykur
4 msk. dökkt kakó
130 g smjör, mjúkt
1 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1 bolli mjólk
2 stór egg eða 3 minni
Hitið ofninn í 175°C, 165 á blástur. Setjið allt nema egg í hrærivélarskál og hrærið í 2 mín. Bætið eggjum út í, einu í einu og hrærið aðrar 2 mín. Setjið deigið í 2 smurð 24-26 cm breið kringlótt kökuform og bakið botnana í 25 mín ( um 20 á blæstri) kakan er tilbúin þegar hún losnar frá börmunum og prjóni sem stungið er í hana kemur hreinn út. Kælið kökubotnana. Smyrjið kreminu á kökuna og skreytið hana með nammi eða kókosmjöli eða nammi.
Krem:
300 g flórsykur
200 g smjör
2 msk. vatn
3-4 msk. dökkt kakó
1 eggjarauða (má sleppa)
1 tsk. vanilludropar
Sigtið flórsykur í hrærivélarskál. Takið 100 g af smjörlíkinu og setjið í pott með vatni og kakó þar til vel samlagað. Hellið út í flórsykurinn og hrærið vel saman. Bætið restinni af smjörlíkinu út í litlum bitum og hrærið þar til kalt. Kremið er fyrst dökkt en verður ljósara þegar það kólnar. Bætið eggjarauðu og vanillu út í. Ef kremið skilur sig er gott að setja það í ísskápinn í 10 mín og hræra aftur, þá verður það mjúkt og fallegt.