Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Gyðingakökur voru bakaðar fyrir jól á mörgum heimilum hér áður fyrr og eru enn vinsælar. Í Danmörku eru þær kallaðar "jödekeger" og væntanlega kom nafnið og uppskriftin að þessum fallegu kökum þaðan. Venjulega voru stungnar út kringlóttar kökur en gaman að breyta til og stjörnur eru svo jólalegar.
80 stk.
200 g smjör, mjúkt
200 g sykur
1 egg
½ tsk. hjartarsalt
250 g hveiti
Hrærið smjör og sykur vel saman. Bætið eggi út í og hrærið vel. Setjið hveiti í skál og blandið hjartarsalti í, hellið því út í smjörhræruna og hnoðið deigið vel saman. Best er að klára það með því að hnoða saman með höndum. Setjið deigið í ísskápinn í eina klukkustund. Hitið ofninn í 180°C, 175°C á blástur. Setjið bökunarpappír á ofnplötur. Skiptið deiginu í 4 parta og fletjið hvern part út á hveitistráðu borði, stingið úr kringlóttar kökur eða stjörnur eins og ég gerði og raðið á ofnplötuna, það má raða þétt, þær renna nær ekkert út. Penslið ofan á hverja köku með eggjahrærunni og stráið kanelsykri og möndluflögum ofan á. Bakið kökurnar í 6-7 mín. Eða þar til þær eru gullinbrúnar.
Ath: Það verður afskurður af deigi en ef við notum alltaf meira og meira hveiti við að fletja út afganginn verða þær kökur svolítið þurrar og gott ráð að fletja út með bökunarpappír undir deigið og ofan á svo ekki bætist meira hveiti í deigið. Pappírinn er sleipur en ráð við því er að ég hef pappírinn ríflegan og brýt hann niður fyrir borðbrún og styð maganum við pappírinn því þannig helst hann stöðugur á meðan ég rúlla deiginu úr. Þannig næst toppnýting.
Ofan á:
1 egg, samanpískað í skál
1 tsk. kanell
2 msk. sykur
20 g möndluflögur eða fínt saxaðar möndlur