Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Baby Ruth kaka var í öllum tertuboðum hér á árunum 1980 - 1990. Þessi kaka var uppáhald margra á mínu heimili og alltaf bökuð fyrir afmæli. Þá var rjóma sprautað utan um hana allan hringinn með rjómasprautu, það var tískan í þá daga. Salthneturnar eru feitar og það borgar sig ekki að mala þær í matvinnsluvél því þá losnar of mikið af fitunni úr þeim og fellir marensinn. Best er að nota poka og lemja á þær til að mala þær gróft.
Kökubotnar:
3 eggjahvítur
260 g sykur (3 dl)
2 ½ dl saltmöndlur
20 stk Rits-kex
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. vanilludropar
4 dl rjómi, þeyttur
Hitið ofninn í 190°C, 180°C á blástur. Setjið bökunarpappír í botnin á 2x 24 cm lausbotna formum. Þeytið eggjahvítur og sykur saman í hreinni skál þar til blandan verður hvítur massi, þetta tekur u.þ.bl. 6-8 mín.
Setjið salthnetur í plastpoka, (ég nota zip-lock poka) lemjið ofan á pokann með kökukefli þar til hneturnar eru gróft malaðar. Setjið þær í skál. Saxið eða myljið Ritz-kexið og bætið út í hneturnar.
Stráið lyftidufti og hellið vanilludropum út í marensinn og blandið saman við með sleikju. Bætið hnetublöndunni út í og blandið varlega með sleikju, passið að ofhræra ekki. Skiptið nú blöndunni í formin og bakið í 20 mín. Kælið botnana og leggið síðan saman með þeyttum rjóma. Smyrjið kreminu ofan á og passið að það sé farið að stífna svolítið svo það leki ekki út um allt.
Krem ofan á:
50 g smjör
100 g súkkulaði
3 eggjarauður
60 g flórsykur
Bræðið smjör og súkkulaði í vatnsbaði við vægan hita, má líka bræða í örbylgjuofni. Þeytið eggjarauður og flórsykur vel saman svo verði létt og ljóst. Hellið súkkulaðiblöndunni út í eggjamassann og þeytið vel saman. Kælið svolítið þar til stífnar.