Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Látlaus og falleg og kemur á óvart. Yndislegt möndlubragð og undurlétt smjörkrem með keim af koníaki. Góð eftirréttaterta sem dugar fyrir 8 og passar vel að bera glas af sætu hvítvín eins og t.d. Sauterne fram með henni.
fyrir 8
Botnar:
125 g möndlur með hýði
125 g flórsykur
5 eggjahvítur
örlítið olía eða brætt smjör
Stillið ofninn á 170°C (160°C á blástur). Finnið til 2 arkir af bökunarpappír og teiknið 2x 20 cm hringi á aðra örkina og 1x 20 cm á hina, samtals 3 hringi. Setjið arkirnar á 2 bökunarplötur. Penslið inn í hringina með olíu eða bræddu smjöri. Setjið möndlur í matvinnsluvél og malið fínt. Bætið flórsykri saman við og blandið vel saman. Þeytið nú eggjahvítur í tandurhreinni skál það til þær eru vel stífar, þ.e. að þið getið hvolft skálinni án þess að þær detti. Bætið möndlublönduni út í og blandið saman við með sleikju. Skiptið deiginu á milli á pappírshringina og jafnið út. Bakið í 20 mín. Setjið örk af bökunarpappír á borðið og stráið örlitlum sykri á pappírinn. Hvolfið botnunum á pappírinn og látið kólna.
Krem:
1 dl sykur
1 dl vatn
5 eggjarauður
200 g smjör, við stofuhita
1 msk. koníak
Setjið sykur og vatn í meðalstóran pott og látið suðuna koma upp, sjóðið án þess að hræra í pottinum í 4 mín. Setjið eggjarauður í hrærivél og þeytið í 1-2 mín. Hellið heitu sykursírópinu út í eggin og látið síðan vélina ganga þar til blandan er köld, þetta tekur um 10 mín. Bætið þá smjöri út í í litlum bitum, hrærið áfram þar til allt er vel samlagað, bætið koníaki út í. Ef kremið skilur sig, sem getur gerst ef eggjablandan hefur ekki kólnað nægilega, látið kremið þá í ísskáp í 10 mín og hrærið aftur í vélinni þar til kremið er flauelsmjúkt og fallegt.
Samsetning:
Setjið kökubotnana saman með kremi og smyrjið því líka ofan á. Þið þurfið að deila kreminu í þrjá parta. Ristið möndluflögurnar, kælið þær örlítið og stráið þeim síðan ofan á. Sigtið flórsykur ofan á rétt áður en þið berið kökuna fram.
Ofan á.
3 msk. möndluflögur
1 msk. flórsykur