Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Hér er ein klassísk og falleg. Þetta er uppskrift sem ég fékk í “A La Carte” fyrsta enska matreiðslublaðinu sem ég eignaðist fyrir mjög mörgum árum. Á þeim tíma sáust svona bökur ekki í bakaríum hér heima og jarðaber sjaldséð í verslunum og voru dýr. Þessi baka varð “vinagjafa bakan” baka sem ég gaf gjarnan þegar ég vildi þakka einhverjum gerðan greiða. Mér þykir því alltaf vænt um þessa böku fyrir utan hvað hún er ótrúlega gómsæt. Best er að byrja á að laga vanillukremið því það þarf að kólna. Margar aðferðir eru til við að gera góðan bökubotn, hér er notaður hnífur en áríðandi er að handfjatla deigið ekki mikið með höndum svo smjörið haldist kalt allan tímann, þá heppnast bökuskelin vel og verður stökk.
Bökubotn:
120 g hveiti
60 g malaðar möndlur eða möndlumjöl
rifinn börkur af lítilli sítrónu
4 msk. flórsykur
100 g kalt smjör í bitum
1 eggjarauða
3 msk. ískalt vatn
Hitið ofninn í 180°C. Setjið hveitið, möndlumjölið, sítrónubörk og flórsykur á borðið,. Notið stóran hníf og saxið smjörið saman við þurrefnin. Takmarkinu er náð þegar smjörið er eins og smáar baunir. Ef smjörið er of mikið malað saman við hveitið verður bökuskelin ekki stökk og krassandi. Pískið eggjarauðu og vatn saman. Gerið laut í hveitið og setjið eggjablönduna þar í og haldið áfram að nota hnífinn til að saxa saman, skafið hveitið inn á miðjuna til að þetta gangi vel, hnoðið í lokin létt saman í höndum þar til deigið er samlagað. Pakkið deiginu í plastfilmu og geymið í ísskáp í 15 mín.
Rúllið deigið út með kökukefli og setjið í smurt form 26-28 cm stórt. Pikkið í botninn með gaffli og forbakið bökuskelina í 10 mín. Það er ágætt að setja smjörpappír í botninn á forminu og svolítið af hrísgrjónum til að botninn lyfti sér ekki. Fjarlægið pappírinn og hrísgrjónin og bakið áfram í 10-15 mín eða þar til botninn er fallega gullinn og bakaður.
Kælið botninn og setjið á tertudisk. Smyrjið vanillukreminu á botninn. Skilið jarðaberin og þettið, skerið þau í tvennt og raðið fallega ofan á kremið. Sigtið flórsykur yfir og berið fram.
Vanillukrem “Crème patisserie:
4 dl mjólk
1 dl rjómi
1 vanillustöng, skorin eftir endilöngu
6 eggjarauður
120 g sykur
45 g maizenamjöl eða kartöflumjöl
2 msk. smjör
vanilludropar eftir smekk (smakkið til)
600-800 g jarðaber
2-3 msk. flórsykur til að sifta yfir berin í lokin
Setjið mjólk og rjóma pott og hitið að suðu, takið af hitanum. Skafið fræin úr vanillustönginni og setjið þau út í mjólkina ásamt stönginni sjálfri og látið bíða með lok á pottinum í 15 mín til að hún taki bragðið vel af vanillunni. Setjið eggjarauður, sykur og maizenamjöl í skál og þeytið saman í nokkran mínútur. Fjarlægið vanillustöngina og hellið mjólkinni út í eggjahræruna. Hellið þessu öllu aftur í pottinn og sjóðið á meðalhita þar til blandan er þykk. Ég nota písk og sleif til skiptis til að fá kremið vel samlagað. Takið af hitanum og bætið smjöri út í, smakkið til með vanilludropum. Hellið í skál, setjið plastfilmu á skálina svo ekki komi skán á kremið og kælið í a.m.k. 1 klst.