Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Ef þið viljið gera mikið magn af bollum er best að margfalda ekki uppskriftina heldur gera hana bara tvöfalda og síðan aðra lögun aftur. Það er viss hætta á að hlutföllin riðlist til og deigið misheppnast frekar ef uppskriftin er 3-4 földuð.
9 - 12 bollur
2 dl vatn
50 g smjör
120 g hveiti
3 meðalstór egg (60-65 g með skurn) eða 4 lítil
1 dl góð sulta
3 -4 dl rjómi, þeyttur
100 g súkkulaði
Hitið ofninn í 200°C (190°C á blástur). Setjið vatn og smjör í pott, bræðið smjörið og látið suðuna koma upp. Bætið hveiti út í, sláið vel saman og hrærið þar til hveitibollan verður samfelld, takið af hitanum og kælið nokkrar mínútur. Bætið eggjum út í, einu í einu. Það má líka setja hveitijafninginn í hrærivél og bæta eggjum út í þar. Hrærið hvert egg vel saman við þannig að deigið verði samfellt, það tekur smástund að fá eggin til að samlagast en það tekst, bara vera þolinmóður. Setjið bökunarpappír á ofnplötu, gott er að setja örlítið af deiginu í hornin undir pappírinn til að festa hann. og setjið 12 bollur á plötuna, magn af hverri er kúfuð matskeið, gott er að nota 2 matskeiðar. Bakið í miðjum ofni í 25-30 mín. Það má ALLS EKKI opna ofninn fyrstu 15-20 mínúturnar, bollurnar geta þá fallið saman. Eftir 25 mín er gott að taka eina bollu út og setja á borðið, ef hún fellur ekki saman eru bollurnar tilbúnar. Kælið bollurnar og leggið saman með sultu og rjóma, bræðið súkkulaði og smyrjið ofan á.