Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Mamma var ástríðubakari og gerði margar góðar kökur. Ískakan hér var ein af hennar uppáhalds. Uppskriftina fann hún í Norsku blaði en þar hét hún þessu nafni “ísterta Solveigar”og fannst mömmu skondið að finna kökuuppskrift tileinkaða sama nafni og hennar. Kakan er ljúf og heppilegt að geta bakað hana með fyrirvara, sett í frysti og tekið út í næsta matarboði eða veislu. Hún er nefnilega mjög góð í eftirrétt líka og má gjarnan skvetta góðum líkjör á hana eða bræddu súkkulaði. Ég bakaði þessa köku og bauð upp á í skírnarveislu dóttur minnar sem fékk nafn ömmu sinnar Sólveig.
10-12 sneiðar
Kakan:
4 eggjahvítur
1 dl malaðar bruður, tvíbökur eða eplakökurasp
2 dl sykur
150 g möndlur malaðar
Hitið ofninn í 150°C. Þeytið eggjahvíturnar stífar. Bætið bruðum, sykri og möndlum varlega út í. Skiptið deigið í tvö smjörpappírklædd 24 cm smellumót. Bakið botnana í 20 mín.Takið þá úr forminu og kælið.
Ísinn:
4 eggjarauður
2 msk. flórsykur
2 tsk. vanillusykur
½ - 1 tsk. skyndikaffiduft
½ msk. mjólk
3 dl rjómi léttþeyttur
Hrærið vel saman rauður og báðar tegundir af sykri. Leysið kaffiduftið upp í heitri mjólkinni. Blandið þeyttum rjómanum út í eggjablönduna ásamt kaffiblöndunni. Setjið annann kökubotninn aftur í smelluformið. Hellið ísblöndunni á botninn og setjið hinn kökubotninn ofan á. Frystið.