Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Hver man ekki eftir þessari? Aðaltertan í hverju boði og hún var til í mismunandi útgáfum á hverju heimili. Amma setti oft berjamauk líka á milli botnanna svo og makrónukökur, rifið súkkulaði og stundum vanillukrem ef vel lá á henni, það fannst mér ótrúlega gott. Síðan var hún listilega skreytt, rjómanum sprautað með rjómasprautu upp með hliðunum, ananassneiðar látnar mynda blómamynstur ofan á og eldrauð kirsuber á völdum stöðum. Vá! Hvað manni fannst þetta flott. Yngri fjölskyldumeðlimir rifust ósjaldan um að fá sneiðina sem á var mest af rauðum kokteilberjum. Í minningunni voru þau ekki endilega svo góð en það sem gerði þau eftirsóknarverð var aðallega það að þau voru svo fá í hverri dós.
10 sneiðar
4 egg
180 g sykur
70 g kartöflumjöl
70 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. vanilludropar
60 g smjör brætt og kælt
Hitið ofninn í 200°C. Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður ljós og létt. Besta útkoman verður ef eggin eru ekki köld og eggjamassinn er þeyttur saman í 5-10 mín. Sigtið kartöflumjöl, hveiti og lyftiduft út í og blandið varlega saman við með sleikju. Bætið vanilludropum og smjöri saman við. Það er ekki nauðsynlegt að hafa smjör í kökubotnunum en það gefur kökunni aukna mýkt. Smyrjið eða setjið bökunarpappír í botninn á 2 smelluformum, 22-24 cm í þvermál. Bakið botnana í 18-20 mín. og kælið.
Fylling og skraut:
1/2-3/4 l rjómi
1 stór dós kokteilávextir (825 g) eða aðrir ávextir í dós
Þeytið rjóma. Sigtið safa frá ávöxtum og geymið hann. Leggið annan botninn á tertudisk og vætið vel í honum með safanum, það er lykilatriði að væta botnana vel svo kakan verði ekki þurr. Smyrjið svolitlu af rjómanum ofan á og dreifið 1/3 af ávöxtunum yfir. Leggið hinn kökubotninn ofan á, vætið í honum með ávaxtasafanum og þekið síðan alla kökuna með rjóma, ofan á og með hliðum. Skreytið með kokteilávöxtum eftir smekk.