Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Ég uppgvötaði þessa köku þegar ég var að gera þátt um amerískar köku og brauðuppskriftir fyrir Gestgjafann. Hún er uppáhald barnanna minna og oft beðið um hana í afmæli. Botnarnir eru ljósir og mjúkir og kremið er dásamlegt vanillukrem. Algjör dásemd þessi kaka.
Kakan:
2 stór egg
140 g sykur
150 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
1 dl mjólk
4 msk. smjör
1 tsk. vanilluextrakt eða 2 tsk. Vanilludropar
Hitið ofninn í 180°C. Þeytið saman egg og sykur. Sigtið saman hveiti og lyftiduft í skál og bætið salti út í. Bræðið smjörið í mjólkinni við vægan hita. Setjið hveiti út í eggjablönduna og hrærið saman með sleikju, bætið volgri mjólkurblöndunni út í ásamt vanillu. Hellið í smjörpappírsklætt smelluform 24 cm á breidd. Bakið í 25-30 mín. Kælið botninn á rist.
Fylling:
4 ½ dl rjómi
½ dl mjólk
1 kanelstöng
1 vanillustöng
50 g sykur
4 eggjarauður
Hitið ofninn í 160°C, setjið stóra ofnskúffu í hann, sjóðið fullan ketil af vatni og hellið því í botninn á henni Setjið rjóma og mjólk í pott. Skerið vanillustöng í tvennt eftir endilöngu og skafið kornin innan úr og bætið þeim í rjómablandið ásamt stönginni, kanilstönginni og sykri, hitið að suðu og látið bíða í 10 mín. Hrærið eggjarauður saman, hellið rjómablandinu út í rauðurnar gegnum sigti og hrærið vel saman. Hellið blöndunni í 24 cm breitt pæform og bakið í vatnsbaðinu í 20-25 mín eða þar til stífnað. Kælt.
Ofan á:
½ dl rjómi
80 g súkkulaði
Hitið rjómann í litlum potti og bræðið súkkulaðið í rjómanum við vægan hita. Kakan er sett saman þannig. Kljúfið botnana í sundur með beittum hníf svo þið fáið tvo jafna botna. Setjið neðri botninn á kökudisk. Jafnið fyllingunni á botninn, það er ágætt að nota skeið. Setjið efri botninn ofan á og smyrjið súkkulaðihjúpnum yfir. Það er ekki gott að frysta kökuna tilbúna en botnana má gera fyrirfram og frysta þá.