Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Uppskriftin að þessari glæsilegu tertu birtist í kökublaði Vikunnar fyrir 30 árum og vakti mikla athygli. Hún slær allar aðrar bombur út, sæt en þó ekki um of, botnarnir stökkir og gott að hafa bit í sem rice-krispís gerir, karamellusósan gerir útslagið. Sannarlega drottningin á veisluborðinu, algjör klassiker.
Kakan:
5 eggjahvítur (150 g)
160 g sykur
110 g púðursykur
5 dl rice-krispís
Hitið ofninn í 150°C. Þeytið eggjahvítur og báðar tegundir af sykri saman þar til stíft og fallegt, þetta tekur 6-8 mín. á meðalhraða. Bætið rice-krispís út í og blandið saman við með sleikju. Setjið bökunarpappír í botninn á 2×26 cm breiðum formum, hér verður að nota há smelluform. Setjið matarolíu á eldhúspappír og berið á innri hliðar á forminu. Skiptið deiginu jafnt á milli formana og skiljið eftir örlítið rúm út við kantana svo marensinn fái rúm til að lyfta sér. Bakið í 60 mínútur. Losið um hliðarnar með hníf og takið varlega úr forminu. Veljið fallegri botninn til að hafa ofan á. Leggið saman með þeyttum rjóma og setjið á tertudisk. Hellið karamellusósunni ofan á.
Á milli:
5 dl rjómi, þeyttur
Karamellukrem ofan á:
2 dl rjómi
100 g púðursykur
2 msk. síróp
30 g smjör
1 tsk. vanilludropar
Setjið rjóma, púðursykur og síróp saman í pott og sjóðið þar til það fer að þykkna. þetta tekur u.þ.bl. 8 mínútur og borgar sig að fylgjast vel með allan tíman og hræra í. Bætið smjöri og vanillu út í.