Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Reglulega langar mig í kökurnar sem ég fékk í sveitinni þegar ég var lítil. Þessi er í uppáhaldi, gott kryddbragð og frábær með glasi af ískaldri léttmjólk. Sítrónubörkurinn gerir útslagið í þessari uppskrift af brúnkökunni. Þessi kaka flokkaðist undir hversdagsbakstur í minni sveit en þar var bakað fyrir vikuna alla fimmtudaga og þá var gaman að fá endann nýbakaðann.
250 g smjör, mjúkt
320 g púðursykur
2 egg
500 g hveiti
1 kúfuð tsk. kanell
1 kúfuð tsk. negull
1 tsk. matarsódi
100 g kúrenur (má nota rúsínur í staðinn)
rifið hýði af 1 sítrónu
2 1/2 dl mjólk
Hitið ofninn í 170°C. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og kremkennt, það skiptir miklu máli í formkökubakstri að hræra smjör og sykur mjög vel saman. Bætið eggjum út í einu í einu, hrærið vel saman. Sigtið hveiti, kanel, negul og matarsóda saman og bætið út í ásamt öllu öðru sem er í uppskriftinni. Hrærið saman þar til allt er vel samlagað. Smyrjið 30 cm langt jólakökuform með smjöri eða olíu og jafnið deiginu í formið. Bakið kökuna í um það bil klukkutíma. Kakan er tilbúin þegar prjóni sem stungið er í hana kemur hreinn út.