Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Þessar Biskottí-kökur eru uppáhalds. Uppskriftin er með próteinríku hveiti sem er mjög gott að nota. Það er auðveldara að eiga við deigið og áferðin verður svo flott. Þessar kökur eru ekki mjög sætar, mér finnast þær betri þannig en það má dýfa neðri helmingnum af þeim í súkkulaðið ef vill.
24-26 stk.
300 g hveiti, ítalskt 00 eða brauðhveiti frá Kornax
120 g sykur
50 g af 3 tegundum af hnetum, samtals 150 g eða blanda af hnetum og trönuberjum eða bara því sem ykkur finnst gott
2 stór egg
1 eggjarauða
2 tsk. vanilludropar
150 g súkkulaði til að hjúpa með ef vill.
Hitið ofninn í 180°C eða 160°C á blæstri. Setjið öll þurrefni í eina skál og sláið eggin saman með vanillunni í annari. Blandið þessu saman og hnoðið í samfellt deig. Setjð bökunarpappír á ofnplötu og mótið hleif um 10x35 cm stóran. Það er gott að nota blauta fingur. Bakið hleifinn í 25-30 mín, hann á að vera bakaður í gegn. Setjið hann á skurðarbretti og skerið hann í þunnar sneiðar, rúmlega 1 cm þunnar. Raðið þeim á bökunarplötuna og bakið aftur í um 10-15 mín eða þar til þær eru farnar að taka lit. Bræðið súkkulaði og dýfið neðri helmingnum á kökunum í það. Látið kólna, gott að láta þær standa við glugga.