Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Leitin að fullkomnu súkkulaðikökunni hefur staðið yfir á heimili okkar árum saman. Börnin mín eiga góðar minningar um þessa leit og voru viljugir þáttakendur við að dæma. Hingað til hefur sú fullkomna ekki enn verið bökuð en þessi hér kemst ansi nálægt því. Kremið er undurmjúkt og ljúffengt og kakan sjálf þétt og blaut í sér.
220 g hveiti
360 g sykur
60 g kakó
1 ½ tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. sjávarsalt
2 ¼ dl súrmjólk eða Ab-mjólk
1 dl matarolía
2 mjög stór egg (65-70 g)
2 tsk. vanilludropar
2 ¼ dl nýlagað kaffi
Hitið ofninn í 175°C (170°C á blástur). Setjið bökunarpappír á botninn á 20 cm smelluformi. Setjið hveiti, sykur, kakó, matarsóda, lyftiduft og maldon-salt í hrærivélaskál og blandið saman. Blandið súrmjólk, matarolíu, eggjum og vanilludropum saman í annari skál. Setjið hrærivélina á lægsta og hellið vökvanum út í , hrærið vel saman. Stoppið vélina og notið sleikju til að skafa niður með hliðunum. Hellið kaffi út í á meðan vélin gengur á lægsta, blandið öllu vel saman og skafið með hliðum eins og áður. Deigið verður svolítið þynnra en þið eruð vön. Skiptið deiginu í formið og bakið í 35-40 mín. Kakan er blaut í sér og erfitt að finna hvenær hún er tilbúin, gott er að hlusta á hana þegar 35 mín. eru liðnar en baka áfram í 5 mín í viðbót ef “hviss” hljóð heyrist í henni. Látið kólna í 30 mín og setjið síðan saman með kremi. Ef þið notið 22 cm form þurfið þið að stytta bökunartímann um 5 mín.
Súkkulaðikrem:
210 g smjör, mjúkt
90 g flórsykur
30 g kakó
100 g síróp (3/4 dl)
150 g súkkulaði,
70% og suðusúkkulaði
vanilludropar eftir smekk
Bræðið súkkulaði í vatnsbaði. Besta aðferðin er að hafa mjög lítinn hita og taka a.m.k. 15 mínútur í það svo súkkulaðið hitni ekki of mikið (ef það er of heitt bræðir það smjörið og þá verður kremið þunnt og þarf að hræra það talsvert lengur til að fá krem áferðina). Hrærið smjör, flórsykur og kakó saman í hrærivél. Bætið sírópi út í og látið blandast vel. Bætið súkkulaði út í og vinnin nú allt vel saman, látið vélina ganga 2-3 mín og notið sleikju til að skafa meðfram börmunum svo allt blandist vel.