Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Flest heimili eiga sína uppskrift að bananabrauði. Banana má frysta þegar þeir eru vel þroskaðir og nota í svona brauð en þá er gott að frysta þá afhýdda og setja í poka. Hér er okkar uppskrift, stundum notum við val- eða pecanhnetur í hana en yngri kynslóðin er ekki mjög hrifin af því, þannig að oftast er það hnetulaust. Við höfum ekki tölu á því hversu oft við höfum bakað þetta ljúfenga brauð okkar eftir þessari uppskrift og kosturinn er hvað það er fljótlegt að hræra í það. Allir elska bananabrauð ungir og gamlir.
3 stórir bananar, vel þroskaðir ( 4 ef þeir eru litlir)
70 g smjör, brætt 120 g sykur
1 egg
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. matarsódi salt á hnífsoddi
230 g hveiti
50 g val-eða pekanhnetur, saxaðar mjög gróft (má sleppa)
Hitið ofninn í 175°C. Setjið bút af bökunarpappír á botn og upp með hliðum á 25 cm löngu jólakökuformi eða sambærilegu formi sem rúmar 1 1/2 líter. Stappið banana og setjið í rúmgóða skál. Bætið öllu út í sem er í uppskriftinni í skálina með banönunum og hrærið allt saman með sleif. Hellið deiginu í formið og bakið neðst í ofninum í 50 mín. Þegar bökunartíminn er liðinn er gott að stinga prjón í brauðið og ef hann kemur hreinn úr þá er brauðið tilbúið. geymist í viku vel pakkað inn í ísskáp. Má frysta og geymist þannig í 6-9 mánuði.