Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Uppskriftin að þessari girnilegu böku er frá mágkonu minni. Hún er flink að baka og hér áður hlökkuðum við alltaf mikið til að hittast og borða kökur í afmælum og öðrum samkomum. Hún gerði þessa köku fyrir mig þegar ég vann að þætti á Gestgjafanum sem hét uppáhalds kakan. Þetta var fyrsta kakan sem henni datt í hug að baka að því tilefni sem segir meira en mörg orð. Mágkona mín elskar rjóma og er sú eina sem ég þekki sem borðar þeyttan rjóma með sörum.
Fyrir 10
Bökuskel:
180 g hveiti
40 g púðursykur
100 g smjör
1 eggjarauða
Myljið smjörið saman við hveitið í höndum eða í hrærivél með hnoðaranum. Bætið sykri og eggjarauðu saman við og hnoðið upp í samfellt deig. Kælið í 30 mín. Rúllið deigið út á hveitistráðu borði og fóðrið bökuform með deiginu svo nái vel upp á kantana. Pikkið á botninn með gaffli og bakið skelina í 15 mín eða þar til hann er gullin og girnilegur.
Fylling:
200 g gott dökkt súkkulaði
1 msk. smjör
3 msk. sykur
3 egg aðskilin
Bræðið súkkulaðið með smjörinu í vatnsbaði, passið að blandan verði ekki of heit. Hrærið eggjarauður og sykur saman í skál og bætið út í súkkulaðiblönduna. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim varlega saman við. Hellið fyllingunni í bökuskelina. Látið kólda.
Ofan á:
3 dl rjómi
1 tsk. kakó eða annað fallegt, gott skraut ofan á
Þeytið rjómann og setjið yfir súkkulaðið, skreytið eftir smekk.