Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Þeir sem hafa farið á námskeið sem ég kenni í Salt Eldhúsi "Deig" læra að gera ýmiskonar brauðdeig með þurrgeri. Snúðadeig eða brioche eins og Frakkar kalla þetta deig er sætt deig með talsverðu af smjöri. Deigið í þessa þríhyrninga er einmitt þannig deig en ég kýs að kalla þetta "léttu útgáfuna" því minna er af smjöri en í venjulegu brioche deigi. Þetta deig er hægt að nota í alls konar snúða og vínarbrauð og er virkilega gott. Sítrónu þríhyrningana bakaði mamma oft, það er gaman að baka þá og eru þeir mjög gómsætir.
16 stk.
Brioche-deig eða snúðadeig:
550 + 50 g hveiti
70 g sykur
1 tsk. sjávarsalt
2 tsk. þurrger
2 dl mjólk
3 egg stærð M/L
150 g smjör, mjúkt
Fylling:
40 g smjör, brætt
50 g sítrónumauk (lemoncurd)
samanpískað egg
Setjið 550 g hveiti, sykur og salt í hrærivélaskál, blandið saman. Stráið þurrgeri í og blandið saman við. Hitið mjólkina vel volga. Bætið eggjum í mjólkina og pískið saman. Passið að blandan sé fingurvolg (37°C). Hellið mjólkurblöndunni út í hveitið og setjið hrærivélina á rólegan hraða, notið hnoðarann, hnoðið vel saman eða í um 8 mín. Bætið nú smjörinu í, smátt og smátt, góða klípu í einu. Látið vélina ganga þar til smjörið er komið vel saman við. Bætið þá 50 g af hveiti í og hnoðið í aðrar 8 mín eða þar til deigið er samfellt í kúlu og sleppir skálinni. Látið hefast undir klút í klukkutíma.
Skiptið deiginu í tvo hluta, hverjum hluta í 8 stk. og mótið bollur. Setjið bökunarpappír á 2 ofnplötur. Fletjið hverja bollu út á hveitistráðu borði, stærð á við frekar stóran kökudisk. Penslið með smjöri og dreifið 1 tsk. af sítrónumauki á. Leggið saman í þríhyrning eins og pönnuköku og raðið á ofnplötuna. Látið hefast í a.m.k. 30 mín. Hitið ofninn í 200°C eða 190°C á blástur. Penslið með eggi. Bakið í 12-15 mín.