Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Lítið mál er að baka rammíslenskt rúgbrauð og hér er uppskriftin. Ég nota gjarnan næturnar í baksturinn, set brauðið inn klukkan ellefu að kvöldi og það er tilbúið næsta morgun.
460 g rúgmjöl
260 g heilhveiti
3 tsk. salt
3 tsk. matarsódi
1 líter súrmjólk eða Ab-mjólk
350 g sýróp
Gott er að vera búin að útvega 3 hreinar mjólkurfernur til að baka í. Hitið ofninn í 100°C, 90°C ef þið notið blástur. Finnið mjög stóra skál eða pott ef þið eigið ekki stóra skál og blandið þurrefnunum í hana og hrærið saman. Hellið súrmjólkinni og sýrópinu út í mjölið og hrærið allt saman með sleif. Skolið og smyrjið 3 x eins-líters fernur að innan með smjöri eða olíu. Skiptið deiginu í fernurnar, þær eiga að vera hálf fullar. Lokið fernunum með klemmu. Setjið fernurnar upp á rönd í ofninn, ekki láta fernurnar snerta borninn, látið grind á hann svo lofti um fernurnar. Bakið í 9 klukkutíma. Látið brauðin kólna lítillega og takið síðan utan af þeim. Ég skipti brauðinu í passlega bita og set í frysti.