Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Tékkland og Austurríki eru fræg fyrir góð kaffihús og kökurnar sem þar fást. Margar frægar kökur koma frá þessum heimshluta eins og vínarterta og sacherterta. Þessi uppskrift kemur frá yndislegu kaffihúsi í Prag og er nefnd eftir borginni. Heslihnetur eru bæði í kökunni og fyllingunni. Þær eru dásamlegar þegar þær eru ristaðar og beiskt hýðið utanum þær er fjarlægt, sérstaklega þegar þær eru notaðar í krem eins og hér.
4 egg
100 g sykur
2 msk. dökkt romm
börkur af ½ sítrónu
100 g heslihnetur, malaðar fínt
5 msk. brauðrasp eða malaðar tvíbökur
5 msk. hveiti
1 tsk. lyftiduft
Hitið ofninn í 200°C. Aðskilið eggin og þeytið hvítur í hrærivél þar til stífar, setjið í skál og geymið. Hrærið eggjarauður og sykur þar til ljóst og loftkennt, það þarf ekki að þvo skálina á milli. Bætið rommi, sítrónuberki, hnetum, raspi, hveiti og lyftidufti saman við. Bætið síðan hvítunum varlega saman við. Setjið bökunarpappír í botninn á 22 cm smelluformi og berið olíu eða smjör á hliðarnar. Jafnið deiginu í formið og bakið í 30-35 mín. Látið kólna og losið síðan úr forminu. Kljúfið botninn í 3 parta. Leggið botnana saman með rjómanum. Smyrjið glassúr ofan á.
Fylling:
70 g heslihnetur
4 dl rjómi
½ dl flórsykur
Ristið heslihnetur í ofni eða á heitri pönnu svo hýðið losni af. Nuddið hýðið af með því að setja hneturnar á rakann eldhúspappír. Takið nokkrar frá í skraut. Saxið afganginn síðan fínt. Þeytið rjómann með flórsykri , takið örlítið frá í skraut og bætið hnetum út í afganginn.
Glassúr:
1 ½ dl flórsykur
2 msk. kakó
2 msk. dökkt romm
Hrærið allt saman.