Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Þessi púðursykurterta hefur verið uppáhaldstertan í fjölskyldu mannsins míns í fjöldamörg ár og sú sem ég er oftast beðin um að baka fyrir veislur. Hún er auðveld og þægileg í bakstri, ég safna gjarnan eggjahvítum í box eða zip-lock poka í frystinn þegar ég nota eggjarauður, bæti í þar til ég er komin með 6 hvítur. Mjög gott er að þeyta eggjahvítur sem búnar eru að frjósa, gott er að afþýða þær í ísskáp yfir nótt. Kakan er upplagður eftirréttur eftir veislumatinn, létt og loftmikil og hreinlega bráðnar á tungunni.
Fyrir 10-12
6 eggjahvítur
6 dl púðursykur
5 dl rjómi
Hitið ofninn í 120°C, það er mjög gott að nota blástur. Þeytið eggjahvítur og púðursykur saman í hrærivél þar til blandan er orðin ljós, létt og kremkennd, þetta tekur u.þ.b. 5-8 mín. Passið að skálin sem þið notið sé tandurhrein og laus við alla fitu svo eggjahvíturnar falli ekki. Setjið pappír á botninn á 2 smelluformum 26 cm og smyrjið þau að innan með smávegis af matarolíu. Skiptið deiginu á milli formana og jafnið því út, ekki setja deigið alveg út í hliðarnar, skiljið smábil eftir þá verða kantarnir fallegri og auðveldara að ná henni úr formunum. Bakið botnana í 1 klst og 15 mín, 15 mín lengur ef þið notið ekki blástur. Látið botnana kólna í formunum og losið þá síðan varlega úr þeim. Þeytið rjómann og leggið botnana saman með honum. Látið kökuna bíða í 2-3 klst eða yfir nótt.