Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Margir af eldri kynslóðinni kannast eflaust við kornflextertu en ekki er víst að yngri bakararnir þekki hana. Þessi kaka á sér langa sögu í minni fjölskyldu og var gjarnan bökuð á sunnudögum. Kakan er best daginn sem hún er bökuð, kornflexið verður svolítið blautt í sér daginn eftir.
4 eggjahvítur
200 g sykur
130 g kornflex
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. vanilludropar
Hitið ofninn í 160°C. Þeytið eggjahvítur og sykur mjög vel saman í 5-6 mín. Myljið kornflexið aðeins með höndunum og bætið út í ásamt lyftidufti og vanilludropum. Hrærið þetta saman við með sleikju. Smyrjið 2 lausbotna 24“ breið form með olíu og skiptið deiginu á milli þeirra. Má líka setja á bökunarpappír á ofnplötur. Bakið botnana í 50 mín. Losið úr formunum og kælið. Leggið botnana saman með þeyttum rjóma. Smyrjið súkkulaðikreminu ofan á.
Á milli:
4 dl rjómi, þeyttur
Ofan á: 100 g 56 % súkkulaði (eða annað gott )
1 dl rjómi
2 eggjarauður
Bræðið súkkulaðið og rjómann saman við vægan hita í vatnsbaði, passið að blandan verði ekki of heit. Þeytið eggjarauðurnar saman í skál með handpísk 1-3 mín. þær eiga að vera léttþeyttar. Hellið súkkulaðinu í mjórri bunu út í eggin. Blandið öllu vel saman og kælið í 10-15 mín ef blandan er þunn (fer eftir hitanum á súkkulaðinu). Smyrjið kreminu á kökuna.