Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Gullkaka, líka kölluð sjónvarpskaka var bökuð næstum fyrir hverja helgi heima hjá mér þegar ég var lítil og hún er bara þannig að öllum finnst hún góð. Hún var líka oft bökuð þegar farið var í sumarbústað, sjónvarpskaka og appelsínukaka voru gjarnan bakaðar til skiptis. Þetta er ein af þeim kökum sem er algjörlega ómótstæðileg nýbökuð þegar kókostoppurinn er stökkur og brakandi. Kökuna má gjarnan frysta og hún er alveg frábær í nesti í lautarferðina.
25 -30 stk.
4 egg, stór
240 g sykur
200 g hveiti
2 tsk. lyftuduft
1 tsk. vanilludropar
50 g smjör, brætt
2 dl mjólk
Hitið ofninn í 190°C. Þeytið egg og sykur saman þar til létt og loftkennt, alltaf gott að gefa eggjablöndunni góðan tíma í hrærivélinni, það skilar sér. Sigtið hveiti og lyftiduft saman í skál. Blandið smjöri, mjólk og vanilludropum saman. Setjið hveitiblönduna og vökvann út í eggin og hrærið saman á minnsta hraða þar til allt er vel blandað. Smyrjið form 24x36 cm (venjulegt skúffukökuform) með olíu og fóðrið það með bökunarpappír Hellið deiginu í og jafnið út. Bakið kökuna í 20 mín. Á meðan gerið þið kókosblönduna.
Kókosblanda:
100 g smjör
150 g kókosmjöl, ég nota gróft
220 g púðursykur
½ dl rjómi eða mjólk
Setjið allt í pott og sjóðið saman þar til gullið og ilmandi. Þegar kakan hefur bakast í 20 mín, þá takið þið hana út úr ofninum og jafnið girnilegu kökosblöndunni yfir. Bakið áfram í 10 mín. Látið kólna svolitla stund og skerið síðan í bita. Það er smekksatriði hversu stórir bitarnir eru en ég er oftast með 25 stk. Kakan er ómótstæðileg nýbökuð en hún geymist í nokkra daga í lokuðu boxi en er líka gott að frysta.