Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Margir af eldri kynslóðinni muna eftir eða baka þessa tertu við hátíðleg tækifæri og er hún ýmist kölluð kanelterta eða kóngaterta. Tengdamóðir mín bakaði hana alltaf og þótti hún ómissandi á því heimili. Þetta er uppskrift frá henni og það verður seint sagt um þessa tertu að hún sé einföld og fljótleg en ljúffeng er hún, mér finnst hún reyndar sú allra besta. Það er betra að skera kökuna ef hún fær að standa í kæliskáp í sólarhring en þá verður hún líka mýkri. Mér finnst hún hinsvegar alveg ómótstæðileg á meðan botnarnir eru ennþá stökkir. Tengdamamma mín sem kallaði hana kóngatertu, hjálpaði mér að baka hana fyrir brúðkauðið mitt, hún var glæsileg á þriggja hæða disk.
190 g smjör
190 g sykur
250 g hveiti
½ tsk. kanill
5 dl rjómi þeyttur
100 g súkkulaði +2 msk. bragðlítil olía brætt saman
Hitið ofninn í 180°C á blæstri, annars 200°C. Hrærið saman smjör og sykur þar til ljóst og létt. Sigtið hveiti og kanel saman, bætið því út í og hrærið saman. Teiknið 22 cm hringi á 6 arkir af smjörpappír. Smyrjið deiginu á smjörpappírinn, rúmlega 100 g í hvern botn. Deigið er nokkuð stíft og best að byrja á því að setja fletja nokkrar klessur af því á pappírinn. Síðan er best að nota pönnukökuspaða eða annann flatann hníf og vera með blauta fingur og skál með vatni til þess að dýfa áhaldinu í. Ekki örvænta þó þetta sé snúið fyrst, síðustu botnarnir verða leikur einn. Önnur aðferð er að skipta deiginu og fletja hvern bita út með bökunarpappír undir og ofaná, og móta í lokin með votum fingrum, það hefur líka gengið vel. Það er óneitanlega fljótlegra að nota blástursofn og baka 2-3 í einu. Baksturstíminn er 5-7 mín á blæstri en 7-10 mín annars. Botnarnir eiga aðeins að taka lit. Kælið botnana og leggið þá síðan saman með rjóma og smyrjið efsta botninn með súkkulaði. Látið bíða í kæli í 2 tíma eða sólarhring.