Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
Heilsubitaköku uppskriftina gerði ég þegar ég vann á kaffihúsi Te og Kaffi um árið. Þær þóttu nýstálegar á þeim tíma, þá var ekki enn farið að selja svokallaða kladda í bakaríum. Þær runnu út og uppskriftin var leyndarmál árum saman. Ég tek uppskriftina ekki mjög hátíðlega utan fyrstu fimm atriðin. Það er sniðugt að kíkja á hvað er til í skápunum, trönuber, aðrar hnetutegundir eða möndlur. Aðalmálið er að hveititegundir, fræ og annað á að vigta u.þ.bl. 750-770 gr og síðan má líka skipta tegundum út með því sem er til eða ykkur líkar.
24 stórar kökur eða allt að 34-36 stk.
240 g smjör mjúkt
200 g púðursykur eða hrásykur
2 stór egg
140 g hnetusmjör, gjarnan ósætt
¾ dl mjólk
150 g heilhveiti, gróft spelti eða annað meðalfgóft mjöl
100 g haframjöl
50 g hveitiklíð
60 g sesamfræ
60 g sólblómafræ
100 g salthnetur
100 g val- eða pekanhnetur
160 g rúsínur
¼ tsk. engifer
1 ½ tsk. kanell
¾ tsk. salt
1 tsk. lyftiduft
Hitið ofninn í 180°C. Hrærið saman smjör og sykur þar til ljóst og kremkennt (gott að nota hrærivélaskál með hræraranum). Bætið eggjum úr í einu í einu og hrærið all vel saman. Bætið síðan hnetusmjöri og mjólk út í. Blandið mjöli, fræjum, rúsínum og öllu kryddi ásamt lyftidufti saman í skál og bætið út í deigið. Blandið vel saman. Klæðið ofnplötur með smjörpappír og mótið stórar kökur með tveim matskeiðum á plöturnar. Ein plata rúmar uþbl. 9 kökur en ef þið hafið þær minni þá rúmast 12 á hverja plötu því gott er að hafa aðeins bil á milli þeirra. Bakið 15 – 18 mín. Það er mjög gott að frysta þessar kökur. Ég frysti þær í litlum pokum og gríp eina og eina þegar mig vantar sætan og hollan aukabita með í nestið.