Kökurnar og baksturinn sem mamma gerði
“Au Coeur Du Rohan” í 5 hverfi í París var uppáhalds kaffihúsið mitt þegar ég bjó í París. Þetta var reyndar tehús í gamaldags stíl, þykkar velúrgardínur, blúndudúkar, gömul rósótt stell og það sem var svo spennandi við kaffihúsið var skenkur við einn vegginn þar sem fullt af girnilegum kökum sátu og biðu eftir að vera borðaðar. Kúnnarnir á þessu tehúsi voru eldri dömur og sumar ansi skrautlega klæddar og málaðar. Á tehúsinu fékk ég þessa karlottu sem mér hefur tekist að gera nánast alveg eins og ég fékk hana. Yndisleg kaka sem auðvelt er að gera, enginn bakstur, bara kaupa fingurkökur.
1 ½ pk. fingurkökur (ladyfingers)
1 dós niðursoðnar perur (400 g )
2 box sýrður rjómi 36%
1 msk. sykur
½ tsk. vanilla
1 uppskrift súkkulaðibúðingur
Klæðið karlottuform eða annað hátt form með plastfilmu eða álpappír. Sigtið vökvan af perunum frá og setjið í skál, skerið perur í tvo hluta. Hrærið sýrðan rjóma, sykur og vanillu saman. Setjið súkkulaðibúðing á botnin á forminu, það er gert svo auðveldara sé að festa kökurnar í formið og það er líka fallegt að hafa dökkan búðing efst. Bleytið fingurkökurnar í perusafa og raðið allan hringinn, látið fallegu hliðina á kökunum snúa að forminu. Raðið nú lag fyrir lag til skiptis sýrðum rjóma, perum, súkkulaðibúðing og hafið súkkulaðibúðing efst. Raðið nokkrum fingurkökum ofan á búðinginn svo hann standi fallega þegar honum er hvolft. Kælið í a.m.k. 2 klst. eða yfir nótt. Hvolfið á fallegan tertudisk og sigtið e.t.v. kakó ofan á.
Súkkulaðibúðingur: 120 g dökkt súkkulaði (besta sem þú færð )
5 eggjahvítur
50 g sykur
2 eggjarauður
Brytjið súkkulaðið og bræðið í vatnsbaði við mjög lágan hita. Þeytið á meðan eggjahvíturnar þar til þær eru næstum stífþeyttar, bætið sykri í og þeytið þar til þær eru stífar. Takið súkkulaðið af hitanum og bætið eggjarauðum í, passið að súkkulaðið sé ekki of heitt áður en rauðum er bætt í. Setjið 1/3 af hvítunum í súkkulaðublönduna og blandið með sleikju, blandið síðan öllum hvítunum í og blandið vel. Setjið í skál og látið í kæli í 3 klst, eða notið sem fyllingu í annað.